Velkomin í leikskólann

Leikskólinn er opinn frá 07:30 - 17:00 alla virka daga og geta börn dvalið þar í 4 til 9 klukkustundir. Þegar barn byrjar í leikskólanum, er gerður dvalarsamningur sem undirritaður er af foreldri/forráðamanni og leikskólastjóra. Gagnkvæmur uppsagnarfrestur er einn mánuður og miðast við mánaðarmót. Skipulags- og námskeiðsdagar eru 6 á ári og þá er leikskólinn lokaður.

Áður en leiksóladvöl hefst, er gert ráð fyrir aðlögunartíma þar sem foreldrar fylgja barninu fyrstu skrefin í nýjum heimi í a.m.k. fimm daga (sjá nánar aðlögunaráætlun). Foreldrar sem ekki tala íslensku eiga rétt á aðstoð túlks.

Þegar búið er að staðfesta leikskólavist í leikskólanum og fá ákveðna dagsetningu, hefst aðlögunin. Aðlögunin er í viku tíma en það fer eftir aldri og þroska barnsins hversu nákvæmlega er farið eftir aðlögunaráætluninni. Foreldrar og deildarstjóri setjast niður í aðlögunarvikunni og skiptast á upplýsingum. Mikilvægt er að barnið fái tækifæri á að kynnast nýjum stað og nýju fólki með foreldrana sér við hlið. Foreldrar fá einnig tækifæri á að kynnast starfsfólki og börnum. Foreldrið dregur sig í hlé og leyfir barninu að spreyta sig í samskiptum við börnin eftir því sem við á.